Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri segir RÚV fagna því að Sigmundur Ernir Rúnarsson hafi verið sýknaður í meiðyrðamáli sem Guðmundur Spartakus Ómarsson höfðaði gegn honum.
Magnús telur þó að mál Sigmundar Ernis og það mál sem Guðmundur höfðaði gegn RÚV hafi verið ólík í eðli sínu og telur enn að það hafi verið rétt ákvörðun að greiða honum 2,5 milljónir króna til að ljúka málinu utan dómstóla.
Líkt og fram hefur komið var Sigmundi Erni stefnt vegna greinar á vef Hringbrautar sem byggðist að stórum hluta á umfjöllun RÚV um meinta aðkomu Guðmundar að fíkniefnaviðskiptum í Brasilíu og Paragvæ.
Í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins segir Magnús Geir að niðurstaða Hæstaréttar í málinu grundvallist á því að frétt Hringbrautar hafi verið frétt um fréttaflutning annarra fjölmiðla.
„Mál RÚV er frábrugðið þessu máli um það veigamikla atriði að tiltekinn hluti ummælanna var ekki endursögn á öðrum fréttaflutningi og hefur í raun þegar að einhverju marki verið leiðréttur. “
Mat lögfræðinga RÚV hafi verið að umtalsverðar líkur stæðu til að tilteknar kröfur Guðmundar næðu fram að ganga.
„Því var það mat lögfræðinga RÚV að ljúka málinu með sátt, fremur en áframhaldandi málarekstri eftir atvikum á tveimur dómstigum.“
Upphæð sáttarinnar hafi þá verið metin nálægt því sem RÚV hefði þurft að greiða í málskostnað, skaðabætur og eigin kostnað við málareksturinn.