Ítalía vann í gærkvöldi 2-1 sigur á Sádí-Arabíu í vináttulandsleik en þetta var fyrsti leikur liðsins eftir að Roberto Mancini tók við því fyrr á árinu.
Ítalía komst ekki á HM sem fer fram í Rússlandi í sumar sem frægt er og var Mancini fenginn í starf landsliðsþjálfara eftir að Gian Piero Ventura var látinn fara.
Mancini, sem gerði Manchester City að Englandsmeisturm árið 2012, valdi Mario Balotelli í sinn fyrsta landsliðshóp og setti hann í byrjunarliðið í gær. Balotelli þakkaði fyrir sig með frábæru marki eftir einstaklingsframtak á 21. mínútu og kom Ítölum þar með á bragðið í leiknum.
Balotelli spilaði síðast með Ítalíu á HM 2014 í Brasilíu þar sem hann skoraði annað marka Ítalíu í 2-1 sigri á Englandi í riðlakeppninni.
Sem kunnugt er hætti Gianluigi Buffon að spila með ítalska landsliðinu eftir að því mistókst að komast á HM og stóð Gianluigi Donnarumma í markinu í fjarveru hans. Buffon spilaði alls 176 landsleiki fyrir Ítalíu.
Sádí-Arabía er á meðal þátttökuliða á HM í sumar og mætir Rússlandi í opnunarleik mótsins þann 14. júní. Liðið er einnig með Úrúgvæ og Egyptalandi í riðli.

