Íslenski boltinn

Marka­ma­skínan Tokic og marg­faldur Ís­lands­meistari í 5. deildina

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Skiptin staðfest.
Skiptin staðfest. Stokkseyri

Framherjinn Hrvoje Tokic hefur ákveðið að rífa fram takkaskóna og spila með Stokkseyri í 5. deild karla hér á landi. Þá mun Martin Bjarni Guðmundsson, margfaldur Íslandsmeistari í fimleikum, einnig spila með liðinu.

Tokic þekkja flest þau sem fylgjast vel með knattspyrnu hér á landi en hann kom fyrst hingað til lands árið 2015 og raðaði inn mörkum fyrir Víking Ólafsvík í 1. deildinni. Hann var stór ástæða þess að Ólafsvíkingar fóru upp í deild þeirra bestu ári síðar og færði sig svo yfir til Breiðabliks ári síðar.

Alls hefur hann leikið 174 leiki hér á landi og skorað í þeim 136. Þar af eru 42 leikir og 14 mörk í A-deild eða Bestu deildinni. Sumarið 2023 lék Tokic með Ægi og Árborg í Lengju- og 4. deild.

Þessi bráðum 35 ára framherji spilaði ekkert á síðustu leiktíð en hefur nú ákveðið að sópa rykið af takkaskónum og leika með Stokkseyri í sumar.

Ásamt því að kynna Tokic til leiks var opinberað að Martin Bjarni, margfaldur Íslandsmeistari í fimleikum, hefði jafnframt skrifað undir hjá félaginu. Martin Bjarni er Selfyssingur og því stutt að fara.

Stokkseyri hefur leik í B-riðli 5. deildar þann 19. maí þegar liðið sækir RB heim á Reykjanesi. Önnur lið í riðlinum eru BF 108, KFR, Spyrnir, SR, Úlfarnir og Þorlákur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×