Viðskiptaþvinganir sem Bandaríkin innleiddu gegn Venesúelamönnum í kjölfar forsetakosninga helgarinnar eru „glæpur gegn mannkyninu“. Þetta fullyrti utanríkisráðuneyti Venesúela í gær.
Bandaríkin eru eitt þeirra ríkja sem viðurkenna ekki forsetakosningarnar og ákvað Donald Trump forseti á mánudag að samþykkja þvinganir sem gera Venesúelamönnum erfitt að selja eignir ríkisins. Það kemur sér illa fyrir ríkisstjórn Nicolas Maduro, sem var endurkjörinn á sunnudag, enda er ríkið í afar djúpri kreppu.
Venesúelastjórn hefur reglulega kennt Bandaríkjunum um þá kreppu og sagt ríkið heyja efnahagslegt stríð gegn sér. „Venesúela fordæmir enn á ný kerfisbundna herferð og árásargirni Bandaríkjastjórnar sem reynir að refsa Venesúelamönnum fyrir að nýta sér kosningaréttinn,“ sagði í tilkynningunni í gær.
Maduro fékk 68 prósent atkvæða en stjórnarandstaðan sniðgekk kosningarnar að mestu. Hefur stjórnarandstaðan sagt að Maduro svindli og því séu kosningarnar marklausar.
