Erlent

Líkir viður­kenningu á Palestínu við „sigur fyrir hryðju­verk“

Kjartan Kjartansson skrifar
Macron (t.v.) og Netanjahú (t.h.) takast í hendur í Jerúsalem skömmu eftir árás Hamas í október 2023. Þeir ræddu saman í síma um áform Frakka um að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt ríki í dag.
Macron (t.v.) og Netanjahú (t.h.) takast í hendur í Jerúsalem skömmu eftir árás Hamas í október 2023. Þeir ræddu saman í síma um áform Frakka um að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt ríki í dag. Vísir/EPA

Forsætisráðherra Ísraels lýsti harðri andstöðu við áform frönsku ríkisstjórnarinnar um að viðurkenna Palestínu sem ríki í símtali við forseta Frakklands í dag. Sagði hann að það yrði stórsigur fyrir hryðjuverkastarfsemi Hamas og Íran.

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, sagðist í síðustu viku ætla að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt ríki á næstu mánuðum. Hann teldi það sanngjarna niðurstöðu.

Þau áform fara þvert ofan í ísraelsk stjórnvöld sem hafa háð stríð gegn Hamas-samtökunum á Gasa frá því að þau gerðu hryðjuverkaárás á Ísrael í október árið 2023. Tugir þúsunda Palestínumanna hafa verið drepnir í stríðinu.

Þeir Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, og Macron ræddu saman í síma í dag. Í yfirlýsingu frá skrifstofu Netanjahú kom fram að hann hefði lýst harðri andstöðu við að Frakkland viðurkenndi palestínskt ríki.

„Palestínskt ríki aðeins nokkrum mínútum frá ísraelskum borgum yrði höfuðvígi hryðjuverka Írans,“ sagði í yfirlýsingunni en klerkastjórnin í Teheran er bakhjarl Hamas-samtakanna sem ráða Gasa.

Sjálfstætt ríki fyrir Palestínumenn hefur lengi verið á meðal forsenda fyrir friðarumleitunum fyrir botni Miðjarðarhafs. Íslensk stjórnvöld hafa viðurkennt Palestínu sem sjálfstætt ríki innan landamæra frá því fyrir sex daga stríðið árið 1967 frá árinu 2011.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×