Tveir fulltrúar frá hverjum flokki taka þátt í viðræðunum en saman eru flokkarnir með 12 borgarfulltrúa sem er eins manns meirihluti.
Í samtali við fréttastofu í morgun sagði Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar, að málefnin yrðu rædd fyrst áður en farið yrði að ræða stóla og verkaskiptingu.

Flokkarnir hafi náð það langt að þeir telji fullvíst að þeir nái málefnalega landi í formlegum viðræðum sem hefjast í dag. Hins vegar sé ljóst að breytingar verði með aðkomu Viðreisnar og ekki sé verið að endurnýja fráfarandi meirihluta.
Viðreisn, Samfylkingin, Píratar og Vinstri græn ákváðu seinnipartinn í gær að ganga til formlegra viðræðna um myndu nýs meirihluta í borgarstjórn. Dagur sagði flokkana hafa notað tímann vel í óformlegum viðræðum frá kosningum og traust hafi myndast milli fólks og þessara fjögurra flokka.
Kjörtímabil nýrrar borgarstjórnar hefst hinn 19. júní. Ætla flokkarnir fjórir að nýta tímann vel til mótunar málefnasáttmála fyrir þann tíma.
