Myndin verðu frumsýnd á morgun í 2.900 kvikmyndahúsum vestanhafs og er markhópurinn sagður ungt fólk.
Á vefnum Box Office Pro er myndin sögð geta þénað um 10 til 15 milljónir dollara. Myndin er sögð allt öðruvísi en þær myndir sem verða í sýningu vestanhafs þessa helgi. Er myndin sögð upplögð fyrir ungt fólk í leit að afþreyingu á stefnumótum og gæti því komið sterk inn á þessari helgi.
Adrift er frumsýnd á sama tíma og stórmyndirnar Solo: A Star Wars Story og Deadpool 2 eru enn fyrirferðarmiklar í kvikmyndahúsum ásamt Avengers: Infinity War.

Gangi spá Box Office Pro eftir verður Adrift í þriðja sæti listans yfir aðsóknarmestu kvikmyndirnar vestanhafs, á eftir Solo og Deadpool 2 en undan Avengers: Infinity War.
Þeir sem reyna að spá fyrir gengi mynda telja að mynd eins og Adrift sé upp á náð og miskunn gagnrýnenda komin. Gott umtal muni gera myndinni gott þegar kemur að aðsókninni á þessari mynd sem er talin hafa kostað um 35 milljónir dollara í framleiðslu, eða um 3,6 milljarða íslenskra króna.
Adrift verður frumsýnd hér á landi 13. júní næstkomandi.