Washington Post greinir frá og hefur eftir heimildarmönnum sínum innan bandaríska stjórnkerfisins. Innbrotin áttu sér stað í janúar og febrúar og eru þau nú rannsökuð af sjóhernum með aðstoð bandarísku alríkislögreglunnar, FBI.
Alls komust hakkararnir yfir 641 gígabæt af gögnum sem meðal annars tengjast leynilegu verkefni sem nefnt er Sea Dragon eða Sædrekinn. Washington Post samþykkti hins vegar beiðni sjóhersins um að greina ekki í smáatriðum frá verkefninu þar sem slíkt gæti ógnað þjóðaröryggi Bandaríkjanna.
Í frétt Post segir að innbrotin sé hluti af áætlunum Kínverja um að hefta hernaðarlega framþróun bandaríska hersins á sama tíma og Kínverjar stefni að því að auka styrk sinn og áhrif í Suðaustur-Asíu.
Kínversk hernaðaryfirvöld hafa undanfarin ár beint sjónum sínum í auknum mæli að framþróun í kafbátahernaði og er áhersla á það sagt vera ein af þremur megináherslum hersins þegar kemur að því að nálgast hernaðastyrk Bandaríkjanna.
Þá segir einnig að vegna fréttar Post hafi Jim Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, farið fram á innri skoðun á því hvernig netöryggi væri háttað á meðal þeirra fjölmörgu verktaka sem starfa fyrir varnarmálaráðuneytið og bandaríska herinn.
Hér að neðan má sjá myndband frá Washington Post þar sem farið er yfir hernaðaruppbyggingu kínverska sjóhersins undanfarin ár.