Erlent

Hafnaði her­mönnum Trump: „Full­veldið er ekki til sölu“

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Trump og Sheinbaum hafa átt í miklum samskiptum undanfarna mánuði vegna landamæra landanna tveggja og baráttu við fíkniefnasmygl glæpagengja.
Trump og Sheinbaum hafa átt í miklum samskiptum undanfarna mánuði vegna landamæra landanna tveggja og baráttu við fíkniefnasmygl glæpagengja. Getty

Claudia Sheinbaum, forseti Mexíkó, segist hafa hafnað boði Donalds Trump Bandaríkjaforseta um að senda bandaríska hermenn yfir landamærin til að aðstoða Mexíkó í baráttunni við glæpagengi. Sheinbaum segir fullveldi landsins ekki til sölu.

Sheinbaum greindi frá þessu í gær eftir að hafa verið spurð út í grein Wall Street Journal, sem birtist á föstudag, en þar var greint frá spennuþrungnu símtali forsetanna tveggja í síðasta mánuði þar sem Trump þrýsti á Sheinbaum að samþykkja stærri þátt bandaríska hersins í baráttunni við fíkniefnagengi í Mexíkó.

„Í einu símtalinu sagði hann: ,Hvernig getum við hjálpað ykkur að berjast við eiturlyfjasmyglið? Ég legg til að bandaríski herinn komi og hjálpi ykkur.',“ sagði Sheinbaum á háskólaviðburði skammt frá Mexíkóborg á laugardag samkvæmt Reuters

„Vitið þið hvað ég sagði við hann? ,Nei, forseti Trump, landsvæðið er heilagt, fullveldið er heilagt, fullveldið er ekki til sölu, fullveldið er elskað og varið.',“ sagði hún. 

Jafnframt að sagði hún að þótt löndin tvö myndu vinna náið saman „munum við aldrei samþykkja viðveru bandaríska hersins á okkar landsvæði.“

„Við getum unnið saman, þú á þínu svæði og við á okkar“

James Hewitt, talsmaður Þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna, sagði í yfirlýsingu seinna í gær að Trump hefði unnið náið með forseta Mexíkó „til að tryggja öruggustu suðvesturlandamæri sögunnar.“

„Hættuleg erlend hryðjuverkasamtak halda hins vgar áfram að ógna sameiginlegu öryggi okkar og eiturlyfin og glæpirnir sem þau dreif ógna amerískum samfélögum þvert yfir landið,“ sagði í yfirlýsingunni.

„Forsetinn hefur verið kýrskýr með það að Mexíkó þurfi að gera meira til að eiga við þessi gengi og eiturlyfjahringi og Bandaríkin eru reiðubúin að aðstoða og útvíkka þegar náið samstarf landanna tveggja,“ sagði einnig.

Viðvera Bandaríkjahers hefur aukist meðfram landamærunum að Mexíkó síðustu mánuði eftir að Trump lýsti því yfir í janúar að hann ætlaði að auka hlut hersins í að stöðva flæði ólöglegra innflytjenda og eiturlyfja. Trump skilgreindi mexíkósk glæpagengi sem erlend hryðjuverkasamtök í febrúar og gaf löggæsluyfirvöldum þannig aukin tól til að eiga við þau.

Sheinbaum hefur nú stigið hart til jarðar og gefið Trump skýrt merki um að hann geti ekki gengið lengra, allavega ekki innan landsvæðis Mexíkó. „Við getum unnið saman, en þú á þínu svæði og við á okkar,“ sagði Sheinbaum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×