Raunir flóttafólksins halda þó áfram þar sem Aquarius fær hvorki leyfi til að koma inn í ítalskar né maltneskar hafnir.
Skipverjar leituðu fyrst eftir leyfi til að koma í land á Ítalíu en ný ríkisstjórn þar í landi hefur gefið út að Ítalía muni undir þeirra stjórn ekki verða að flóttamannabúðum Evrópu. Nýskipaður innanríkisráðherra Ítalíu, Matteo Salvini, hefur lengi verið á móti því að flóttamenn fái að setjast að á Ítalíu.
Nýr forsætisráðherra Ítalíu, Giuseppe Conte sagðist í færslu á Facebook, hafa haft samband við maltneska forsætisráðherrann Joseph Muscat og beðið um að Malta tæki við þeim sem voru hjálpar þurfi.
Maltnesk yfirvöld neituðu að taka á móti fólkinu og hefur því skipið Aquarius verið á hafi úti í meira en sólarhring og bíður eftir að fá leyfi til að koma í höfn.