Lögmenn bandaríska kvikmyndaframleiðandans Harveys Weinstein lögðu fram tölvupósta sem kona sem sakar hann um nauðgun sendi honum eftir árásina fyrir dómstól í New York í dag. Þeir telja póstana grundvöll til að vísa málinu gegn honum frá.
Konan sakar Weinstein um að hafa nauðgað sér á hótelherbergi í mars árið 2013. Hún er ein fjölda kvenna sem hefur greint frá kynferðislegu ofbeldi og áreitni af hálfu kvikmyndaframleiðandans undanfarna mánuði. Ásakanirnar á hendur Weinstein urðu kveikjan að #MeToo-vitundarvakningunni um kynferðislega áreitni og ofbeldi sem hefur borist víða um heim.
Í tölvupóstum sem konan sendi Weinstein eftir að árásin átti sér stað virðist hún tala hlýlega til hans. Þakkar hún honum fyrir „allt sem þú gerir fyrir mig“ og segist langa til að hitta hann aftur. Lögmenn Weinstein halda því fram að póstarnir sýni að samband þeirra hafi verið innilegt og með vilja þeirra beggja, að sögn AP-fréttastofunnar.
Saksóknarar í New York hafa ekki tjáð sig um gögnin sem verjendurnir hafa lagt fram.