Það sem af er ári hafa 103 leitað á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis. Metfjöldi leitaði þangað í fyrra, 187 einstaklingar. Hrönn Stefánsdóttir, verkefnastjóri á neyðarmóttökunni, segir ekki stefna í að það met verði slegið í ár.
„Það leituðu mjög fáir til okkar í júní. Við töldum að umræðan væri að skila sér í þessari fækkun en það hefur aukist töluvert upp á síðkastið,“ segir Hrönn.
Að sögn Hrannar er mynstrið nú svipað og á síðasta ári, meðal annars þegar kemur að aldri þolenda kynferðisofbeldis. Þó hefur þeim fjölgað sem leita til neyðarmóttökunnar vegna ofbeldis í nánu sambandi.
„Við erum ánægð með þá þróun að þessi hópur sé farinn að leita til okkar. Ég þakka það þeirri umræðu að það sé eitthvað til sem heitir kynferðisofbeldi innan náins sambands.“
Hrönn bendir á að flestir sem verði fyrir heimilisofbeldi lýsi líka kynferðisofbeldi í sambandi.
Í tengslum við verslunarmannahelgina hefst jafnan umræða um kynferðisofbeldi. Hrönn segir kynferðisbrot hafi verið fleiri um þessa helgi á árum áður. „Það er mjög mikilvægt að þeir sem halda útihátíðir gefi skýr skilaboð um að þetta sé fordæmt. Kynferðisbrotum um verslunarmannahelgina hefur fækkað meðal annars vegna bættrar gæslu og eftirlits.“
Þá skipti forvarnarstarf miklu. Mikil umræða hafa verið í aðdraganda Þjóðhátíðar í Eyjum 2016. Þá hafi aðeins verið tilkynnt um eitt kynferðisbrot. Í fyrra hafi umræðan verið minni og tilvikin verið fjögur.
Hrönn minnir á að neyðarmóttakan sé opin allan sólarhringinn á bráðadeild Landspítalans og segir að þar sé vel tekið á móti fólki.
