Sautján ára piltur sem úrskurðaður hefur verið í tveggja vikna gæsluvarðhald í Noregi kveðst saklaus af því að hafa orðið hinni þrettán ára Sunnivu Ødegård að bana í bænum Varhaug á sunnudagskvöld.
Verjandi piltsins, Tor Inge Borgersen, segir í yfirlýsingu til norskra fjölmiðla að skjólstæðingur sinn ætli ekki að áfrýja gæsluvarðhaldsúrskurðinum þar sem hann hafi skilning á þeirri stöðu sem lögregla er í og að rannsókn geti leitt sakleysi hans í ljós.
Lögregla í Noregi staðfesti í morgun að bráðaniðurstaða krufningar hafi leitt í ljós að Sunnivu hafi verið ráðinn bani. Lík Sunnivu fannst skammt frá heimili hennar í Varhaug eftir að hún hafði ekki skilað sér heim eftir heimsókn til vinkonu.
Var á staðnum
Lögregla í Rogalandi hefur í dag haldið áfram að ræða við möguleg vitni og mun yfirheyra piltinn á ný í dag. Hann hefur viðurkennt að hafa brotist inn á leikskóla í Varhaug umrætt kvöld. Hann hefur jafnframt viðurkennt að hafa verið staddur á staðnum þar sem Sunniva fannst látin, þó að hann neiti því að tengjast dauða hennar.
Áður hefur verið greint frá því að pilturinn sé góðkunningi lögreglunnar en að hann hafi ekki komist í kast við lögin áður vegna ofbeldis. Hann ku vera norskur ríkisborgari sem hafi lengi búið í Varhaug, ekki langt frá heimili Sunnivu. Hann mætti sjálfur á lögreglustöð til að gefa vitnisburð en var síðar handtekinn.
Sautján ára piltur neitar að hafa banað Sunnivu

Tengdar fréttir

Unglingur ákærður fyrir að myrða norsku stúlkuna
Sautján ára drengur hefur verið handtekinn og ákærður í tengslum við rannsóknina á andláti 13 ára stúlku.

Þrettán ára stúlka talin hafa verið myrt í Noregi
Umfangsmikil rannsókn hefur verið komið á laggirnar í bænum Varhaug.