Fjárfestingarsjóðir á vegum bandaríska eignastýringarfyrirtækisins Eaton Vance hafa á síðustu vikum selt nærri fimm prósenta hlut í N1 fyrir hátt í 1,5 milljarða króna miðað við núverandi gengi hlutabréfa í olíufélaginu.
Sjóðir í stýringu Eaton Vance eru ekki lengur í hópi tuttugu stærstu hluthafa N1 samkvæmt nýjum hluthafalista, dagsettum 23. ágúst, sem birtist í nýútgefinni lýsingu olíufélagsins. Tveir sjóðir á vegum eignastýringarfyrirtækisins, annars vegar Global Macro Absolute Return Ad og hins vegar Global Macro Portfolio, áttu samanlagt tæplega fimm prósenta eignarhlut í N1 um miðjan júlímánuð en markaðsvirði hlutarins, miðað við núverandi gengi bréfa félagsins, er tæplega 1,5 milljarðar króna.
Kaupendur að hlutnum voru meðal annars fjárfestingarsjóðir á vegum Wellington Management, annars bandarísks eignastýringarfyrirtækis, en umræddir sjóðir fara nú samanlagt með 9,6 prósenta hlut í N1 að virði tæpra þriggja milljarða króna. Íslenski lífeyrissjóðurinn og sjóðir í stýringu Akta hafa einnig bætt við sig í olíufélaginu á undanförnum vikum.
Samkvæmt heimildum Markaðarins hafa sjóðir á vegum Eaton Vance minnkað við sig í nokkrum skráðum félögum á síðustu vikum. Þannig seldu sjóðirnir samanlagt ríflega tveggja prósenta hlut í Icelandair Group fyrr í þessum mánuði en ætla má að söluverð hlutarins hafi verið rúmlega 900 milljónir króna ef miðað er við gengi hlutabréfa í ferðaþjónustufélaginu á þeim tíma þegar viðskiptin gengu í gegn. Kaupendur að bréfunum voru dreifður hópur fjárfesta.
Sjóðir Eaton Vance seldu sem kunnugt er ríflega hálf prósents hlut í TM í síðustu viku, en eftir viðskiptin fara þeir með um 4,7 prósenta hlut í tryggingafélaginu, og þá herma heimildir Markaðarins að sjóðirnir hafi einnig minnkað við sig í tryggingafélögunum Sjóvá og VÍS.
Á móti hafa sjóðirnir bætt lítillega við hlut sinn í Arion banka í sumar og þá tóku þeir þátt í nýafstöðnu skuldabréfaútboði Eikar fasteignafélags, eftir því sem heimildir Markaðarins herma, en Fossar markaðir höfðu umsjón með útboðinu.
Eaton Vance hefur á síðustu árum verið umsvifamesti erlendi fjárfestirinn á íslenskum hlutabréfamarkaði en félagið hóf innreið sína á markaðinn árið 2015.