Þétt var setið í dómsal Héraðsdóms Suðurlands í gær á fyrri degi aðalmeðferðar í máli Vals, sem ákærður er fyrir að hafa banað bróður sínum.
Fulltrúar fjölmiðla voru viðstaddir, auk fjölskyldumeðlima og vina Ragnars og Vals, þegar sá síðarnefndi settist andspænis dómaranum og lýsti með yfirveguðum hætti því sem hann ræki minni til.
Valur greindi frá því að bræður hans, Ragnar og Örn, hefðu komið í heimsókn á Gýgjarhól umrætt kvöld, á föstudeginum langa, og að sá fyrrnefndi hefði komið færandi hendi, með tvær flöskur af sterku áfengi.
Valur sagðist á þessum tíma ekki hafa bragðað áfengi í þrjá mánuði. eða allt frá þrettándanum í janúar. Það hafi hann hins vegar gert í tilefni heimsóknar bræðranna. Vel hafi farið á með þeim. Um klukkan tíu hafi Örn lagst til rekkju. Þeir Ragnar hafi hins vegar setið áfram að drykkju.
Valur sagðist hafa greint Ragnari frá framtíðaráformum sínum með bæinn. Í þeim fólst að færa bæjarstæðið og koma upp kaldavatnsveitu. Sagði hann að þá hefði Ragnar sýnt ólundarviðbrögð.

Valur kvaðst fyrir dómi ekki kunna neinar skýringar á því hvers vegna þeir Ragnar gætu hafa átt í átökum. „Hvorki fyrr né síðar,“ sagði Valur aðspurður hvort hann hefði borið þungan hug til bróður síns.
„Hann tók mjög skýrt fram að hann sæi verulega eftir öllu,“ sagði Nanna Briem geðlæknir, sem átti fimm viðtalstíma með Vali. Þar bar hann allan tímann fyrir sig minnisleysi að sögn Nönnu sem metur Val sakhæfan.
Sjálfur greindi Valur frá því fyrir dómi að hann hefði tekið ákvörðun í janúar um að hætta allri drykkju. Hann hefði átt það til að drekka sig til óminnis og þá hefði það gerst oftar en einu sinni að hann yrði ofbeldisfullur undir áhrifum.
Lögreglufulltrúar sem mættu fyrir dóminn lýstu vettvangi í þvottahúsinu og áverkum á Ragnari. Hann hefði fengið högg og síðan hefði verið sparkað ítrekað í hægri síðu hans er hann var liggjandi.