Saksóknarar á Englandi hafa ákveðið að fella niður ákærur á hendur fyrrverandi yfirmanni lögreglunnar í Suður-Jórvíkurskíri vegna Hillsborough-slyssins. Hann var sakaður um að hafa logið að rannsakendum.
Norman Bettison var ákærður fyrir brot í starfi í fyrra. Hann var sakaður um að hafa gefið rannsakendum rangar eða misvísandi lýsingar á viðbrögðum lögreglu eftir slysið á Hillsborough-leikvanginum í Sheffield árið 1989.
Níutíu og sex stuðningsmenn enska knattspyrnuliðsins Liverpool létust í miklum troðningi sem myndaðist í annarri endastúku vallarins þar sem undanúrslitaleikur ensku bikarkeppninnar var leikinn.
Ákærur á hendur fyrrverandi yfirmönnum lögreglunnar voru gefnar út í kjölfar þess að kviðdómendur í réttarrannsókn sem lauk árið 2016 komust að þeirri niðurstöðu að gróf vanræksla skipuleggjenda og lögreglu hafi verið ástæða þess að slysið átti sér stað.
Bettison hafði óskað eftir því að ákærurnar yrðu látnar falla niður en hann hefur alla tíð neitað að hafa gert nokkuð af sér. Taka átti mál hans fyrir dómi í dag en saksóknarar tilkynntu þá að málið hefði verið fellt niður, að því er segir í frétt The Guardian.
Lögreglumaðurinn hefur meðal annars verið sakaður um að hafa reynt að koma sökinni af því hvernig fór á stuðningsmenn Liverpool og ljúga til um hvernig slysið bar að, meðal annars með því að breyta yfirlýsingum lögregluþjóna sem voru við störf á Hillsborough.