Íslenska landsliðskonan og fyrirliði Íslandsmeistara Þór/KA, Sandra María Jessen, fékk ekki að spila eina mínútu í leikjum landsliðsins á móti Þýskalandi og Tékklandi í undankeppni HM.
Sandra María Jessen hefur skorað 13 mörk í Pepsi-deildinni í sumar en landsliðsþjálfarinn Freyr Alexandersson leitaði ekki til hennar í þessum mikilvægu leikjum.
Miðvörðurinn Glódís Perla Viggósdóttir var sú eina sem skoraði í þremur síðustu leikjum íslenska liðsins í undankeppninni en þeir voru allir á Laugardalsvellinum. Glódís Perla skoraði tvö mörk á móti Slóvenum og svo eitt í gær á móti Tékkum. Engum miðjumanni eða sóknarmanni tókst að skora á þessum 270 mínútum.
Telja má líklegt að Sandra María hafi verið mjög hungruð í að fá að spila í þessum leikjum.

Sandra María var skiljanlega svekkt eftir að þurft að sitja á bekknum í þessar 180 mínútur og þurfti að fá útrás, ef marka má færslu hennar á Instagram.
Hún flaug strax norður til Akureyrar og ákvað síðan að drífa sig í ræktina og hlaupa 13 kílómetra á hlaupabrettinu. Sandra María sagði frá þessu á Instagram þar sem hún birti mynd af hlaupabreyttinu undir orðunum „Smá útrás“.
Fylgjendur hennar á fengu reyndar ekki að sjá tímann en hann hefur örugglega verið góður.
Næst á dagskrá hjá Söndru Maríu er að hjálpa Þór/KA liðinu að vinna Íslandsmeistaratitilinn annað árið í röð. Liðið er þar í harðri baráttu við Breiðablik en liðin mætast einmitt í hálfgerðum úrslitaleik um titilinn í Kópavogi á laugardaginn kemur.