Skoðun

Slettið enskunni, slobbarnir ykkar

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Ef menn halda að málhreinsun sé einkenni á lítilli þjóð sem geymir tungumál sitt í fáum munum og munnum þá er það mikill misskilningur. Hér á Suður-Spáni finnast ófáir sem engjast í fegurðarskyninu í hvert sinn sem viðmælandi þeirra slettir ensku. Þeir eru nefnilega til hér sem geta ekki talað um lífsleiknispekinga án þess að grípa til orðsins „coach“ og enginn gerist svo sveitalegur að tala um aðdáendur meðan hægt er að sletta enska orðinu „fans“ og svo finnst kaupmönnum og auglýsendum alveg tilvalið að nota orðið „shopping“ þetta og „shopping“ hitt þegar ýta á undir kaupkæti fólks.

Barátta spænskra málhreinsunarmanna fær mig oft til að huga að samherjum þeirra á Íslandi og nú er svo komið að ég fagna bæði enskubrúkinu en ekki síður baráttunni gegn því. Eins og allir vita er það sóðaskapur að sletta jafnvel þó sumum finnst þeir vera að slá um sig með slettugangi. Þeir minna mig á sveitatöffarana sem skutu sígarettustubbum með selbita og vonuðu að kvenþjóðin fylgdist með aðförunum. Með sama móti skjóta sumir nýjum útlenskum hugtökum sem þeir telja að íslensk tunga nái ekki til. Einsog brain drain, dreddlokkar og normalísering sem enginn með óbrenglað fegurðarskyn ætti nokkurn tíma að láta sér um munn fara. En þá koma til skjalanna hreinsunarmenn sem mega ekki bregðast við með niðurrifi heldur verða að setja fram nýjung sem slær vágestinum við. Og guði sé lof fyrir slíkt fólk sem kemur með orð einsog spekileki og göndul-lokkar og sagnir eins og að venjuvæða eða hefðbinda.

Eins og sjá má geta þessar hreingerningar orðið hin mesta skemmtan sem þar að auki skerpir íslenska málkennd svo endilega slettið enskunni, slobbarnir ykkar.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×