Yfirvöld í Tyrklandi rannsaka nú umferðarmyndavélar í von um að finna svartan sendiferðabíl sem þau telja hafa flutt lík blaðamannsins Jamal Khashoggi frá ræðisskrifstofu Sádi-arabíu í Istanbúl á þriðjudag. Bíllinn sást keyra frá ræðisskrifstofunni tveimur tímum eftir að Khashoggi fór þangað inn.
Sjá einnig: Telja að lík blaðamannsins hafi verið bútað niður og flutt á brott
Bílinn er talinn vera einn af sex bílum í eigu hóps leigumorðingja sem taldir eru bera ábyrgð á dauða blaðamannsins. Á öryggismyndavélum sjást kassar vera færðir inn í bílinn áður en hann keyrði burt ásamt fimm öðrum bílum. Þrír bílanna keyrðu áfram á hraðbrautinni en hinir þrír beygðu til hægri.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hefur krafist útskýringa á hvarfi blaðamannsins og segist fylgjast náið með rannsókninni. Þá segir hann ræðisskrifstofuna ekki getað firrað sig ábyrgð með því að lýsa því yfir að blaðamaðurinn hafi yfirgefið bygginguna án þess að færa fyrir því sönnur.
Khashoggi hafði áður starfað sem ráðgjafi í heimalandi sínu áður en hann gerðist sjálfstætt starfandi blaðamaður og skrifaði meðal annars pistla fyrir Washington Post þar sem hann gagnrýndi stjórnvöld í heimalandinu. Þá er hann sagður hafa fengið tilboð um að gerast ráðgjafi krónprinsins Mohammed bin Salman stuttu fyrir hvarfið.
Yfirvöld í Tyrklandi leita bíls sem talinn er hafa flutt lík blaðamannsins

Tengdar fréttir

Blaðamaður talinn hafa verið myrtur á ræðismannaskrifstofu heimalands síns
Tyrkneska lögreglan telur að Sádí-arabíski blaðamaðurinn Jamal Khashoggi hafi verið myrtur á ræðismannaskrifsstofu Sádi-arabíu í Istanbúl þar sem síðast sást til hans.

Telja að lík blaðamannsins hafi verið bútað niður og flutt á brott
Ekkert hefur spurst til Jamals Khashoggi, blaðamann frá Sádí-Arabíu frá því hann heimsótti ræðisskrifstofu heimalands síns síðasta þriðjudag. Hann hefur undanfarið ár verið í sjálfskipaðri útlegð í Washington af ótta við ofsóknir yfirvalda.