Skoðun

Frelsi til heimsku

Þórarinn Þórarinsson skrifar
Grípum niður í 19. grein Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna: „Allir skulu frjálsir skoðana sinna og að því að láta þær í ljós.“

Hljómar ósköp einfalt en í samfélagi sem er límt saman á lyginni eru mannréttindi orðin valkvæð og eiga ekki við um alla. Alls konar fólk, til hægri, vinstri, í miðjunni og jöðrunum gargar iðulega hátt um mannréttindi þangað til fólk sem því líkar ekki við á að njóta þeirra.

Algengast er að mannréttindum sé kastað fyrir róða þegar einfeldningar og vitleysingar segja eða skrifa einhverja botnlausa rökleysu og auglýsa þannig fávisku sína og úrelt músarholusjónarmið.

Væri einmitt þá ekki lag að nýta skoðana- og málfrelsi sitt, una hinum skoðanavillta að njóta þess sama og kveða hann í kútinn með heilbrigðri rökræðu?

Það er ekki bannað með lögum að vera heimskur. Í raun eru það grundvallarmannréttindi að fá að vera fífl og taka af allan vafa í ræðu og riti.

George Orwell sjá það ömurlega andrúm sem við lifum í fyrir og benti á að rétturinn til þess að segja fólki það sem það vill ekki heyra er innsti kjarni frelsisins.

Oscar Wilde sneri upp á fleyg orð Voltaires þegar hann sagði: „Má vera að ég sé ósammála þér en ég mun verja út í rauðan dauðann rétt þinn til þess að gera þig að fífli.“

Pæling að hafa þetta bak við eyrað næst þegar ringluð risaeðla sveiflar halanum á samfélagsmiðlum, jafnvel velta fyrir sér hvað felst í mannréttindum og skoða samfélög þar sem þau hafa verið fótum troðin.

Vill eitthvert okkar í alvöru þurfa að orna sér við ylinn af brennandi bókum?




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×