Kanadískt fyrirtæki hafði augastað á eyjunni Vigur í Ísafjarðardjúpi með það í huga að gera út þyrlur þaðan sem færu með skíðamenn í friðlandið á Hornströndum. Það hafi hins vegar strandað á því að þyrluflug í friðlandinu er takmörkunum háð samkvæmt reglum.
Þetta segir Davíð Ólafsson, fasteignasali hjá Borg, sem sér um söluna á eyjunni. Margir hafa sýnt eyjunni áhuga frá því hún var auglýst til sölu fyrr í ár.
Davíð segir að ekki verði farið undir 300 milljónir króna þegar talið berst að kaupverði eyjunnar.
Vigur skipar stóran sess í ferðaþjónustu Vestfirðinga en um tíu til ellefu þúsund manns fara til eyjunnar á ári hverju. Nú þegar er búið að selja ferðir árið 2019 og yrði væntanlegur kaupandi skuldbundinn til að halda gildandi samninga vegna þeirra ferða.
Davíð segir mikinn áhuga á eyjunni erlendis frá, þá aðallega frá bandarískum og kanadískum aðilum og þá hafi aðilar frá Asíu sýnt Vigur áhuga.
Eyjan er eftir sem áður enn á sölu en eins og áður sagði höfðu kanadískir aðilar áhuga á að vera með þyrluferðir þaðan á Hornstrandir. Það er þó takmörkunum háð því svæðið er friðlýst og hafa bæjaryfirvöld Ísafjarðarbæjar, sem hefur yfirráð með svæðinu, lýst sig alfarið mótfallin þyrluflugi á svæðinu nema um neyðartilvik sé að ræða.
