Um er að ræða eina af glæsilegri byggingum Vesturbæjar Reykjavíkur hönnuð af Einari Sveinssyni arkitekt.
Húsið hefur staðið autt um árabil og má muna fífil sinn fegurri.
„Miðað við þann áhuga sem hefur verið sýndur og byggt út frá því ætti húsið að seljast á 250-300 milljónir ,“ segir Jón Rafn Valdimarsson sem sér um fasteignasöluferlið sjálft.
„Ástand hússins er mjög misjafnt. Það hefur til að mynda ekki verið nein kynding í húsinu í sex ár og því er allt gólfefni ónýtt. Parkteið bólgnar upp við slíkar aðstæður. Það er leki á nokkrum stöðum.“
Hann segir að húsið hafi tekið miklum breytingum eftir að það varð að sendiráði.
„Það þarf auðvitað að koma því í gott stand og jafnvel setja upp fimm íbúðir eins og það var upphaflega. Svo er reyndar hægt að hafa það sem eitt stórt fjölskylduhús.“
Fjallað var um það í fréttum Stöðvar 2 í fyrra að nágrannar væru uggandi yfir vanhirðu á húsinu. Það hefði staðið autt síðan árið 2012.
Skipulag hússins hefur verið breytt frá upprunalegri teikningu og skráningu fasteignaskrár en samkvæmt þeirri skrá er gert ráð fyrir 5 íbúðum í húsinu ásamt bílskúr.
Íbúðirnar eru í mismunandi stærðum og eru meðal annars tvær glæsilegar hæðir, hvor þeirra rúmlega 200 fermetrar að stærð.
Alls eru 19 herbergi í húsinu og fimm baðherbergi en fasteignamat eignarinnar er 253 milljónir.

