Tveir skipabjörgunarsérfræðingar frá hollenska fyrirtækinu Ardent fóru um borð í flutningaskipið Fjordvik um tíuleytið í morgun þegar starfsmenn Köfunarþjónustunnar höfðu lokið við smíði landgöngubrúar.
Sérfræðingarnir fóru um borð í skipið sem rak upp í utanverðan hafnargarð Helguvíkurhafnar í fyrrinótt til að meta aðstæður. Þetta segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar í samtali við fréttastofu.
Viðbragðsaðilar og sérfræðingar ætla að funda um stöðuna í hádeginu.
Síðdegis er von á þremur sérfræðingum frá Ardent hingað til lands til viðbótar við þá tvo sem fyrir eru frá hollenska björgunarfyrirtækinu. Veðurskilyrði eru ekki með besta móti en þó mun betri en í gær.

