Skoðun

Nýsköpun á húsnæðismarkaði

Dagur B. Eggertsson skrifar
Síðasta vetur auglýsti borgin eftir nýjum lausnum og hugmyndum í húsnæðismálum undir yfirskriftinni Hagkvæmt húsnæði – ungt fólk og fyrstu kaupendur. Um 70 hópar eða einstaklingar skiluðu inn hugmyndum af öllum stærðum og gerðum. Eftir strangt ferli sitja nú eftir níu hópar sem hafa verið valdir til að gera hugmyndir að veruleika. Í öllum verkefnum er metnaður og ný hugsun á byggingarmarkaði. Markmið borgarinnar er að tryggja hagkvæmt húsnæði á viðráðanlegu verði en um leið verður verkefnið eitt athyglisverðasta nýsköpunarverkefni í byggingariðnaði á Íslandi um áratugaskeið. Þarna eru nýjar tæknilausnir, deililausnir og eldri hugmyndir færðar til nútímans. Og markmiðið er ódýr leiga og íbúðir á viðráðanlegu verði.

Næsta skref er að semja um lóðir fyrir yfir 500 íbúðir á sjö spennandi stöðum í borginni. Borgin lætur lóðirnar gegn skýrum kvöðum um ódýrar íbúðir til kaups eða örugga langatímaleigu sem ekki hækki umfram verðlag nema með samþykki borgarinnar. Tilgangurinn er að fara nýjar leiðir við að byggja og til að koma til móts við hópa sem hafa átt erfitt uppdráttar á húsnæðismarkaði. Ungt fólk og aðra sem geta hvorki keypt né leigt á viðráðanlegu verði.

Á föstudaginn heldur Reykjavíkurborg árlegan fund um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Reykjavík. Þar förum við yfir stöðu uppbyggingar í Reykjavík og hvað er fram undan. Síðustu misseri höfum við slegið met í lóðaúthlutunum og það sem gerir þennan fund sérstaklega spennandi er að árið í ár er stærsta byggingarár í sögu Reykjavíkur. Íbúðum á framkvæmdastigi fjölgar umtalsvert á milli ára. Útgefin byggingarleyfi hafa aldrei verið fleiri en á þessu ári. Hlutfall uppbyggingar af hálfu húsnæðisfélaga sem eru að byggja fyrst og fremst til að framleiða öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði, en án hagnaðarsjónarmiða, hefur aldrei verið hærra. Allt þrennt er fagnaðarefni og fjölmargt spennandi fram undan.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×