Mesta lækkunin varð á virði bréfa í Icelandair. Eftir um 417 milljón króna viðskipti nam lækkunin næstum 13 prósentum. Ekki þarf að leita lengi að skýringum - greint var frá því í morgun að fallið hafi verið frá kaupum félagsins á WOW air. Bréf í Icelandair höfðu hækkað nokkuð skarpt frá upphafi mánaðar, þegar fyrst var greint frá viðræðum við WOW. Gengi bréfanna var rúmlega 6 krónur fyrir WOW-viðræðurnar en rauk upp í rúmlega 11 krónur. Nú standa bréfin í um 10 krónum á hlut.
Tíðindi morgunsins höfðu ekki aðeins áhrif á gengi bréfa Icelandair. Næst mesta lækkunin í dag varð á bréfum Festi, sem áður hét N1. Félagið sérhæfir sig í sölu á eldsneyti og meðal stærstu viðskiptavina Festi er fyrrnefnt WOW air. Óvissan um framtíð flugfélagsins, sem greinanda varð tíðrætt um í samtali við Vísi í morgun, virðist þannig hafa grafið undan Festi. Þar að auki sendi Festi frá sér afkomutilkynningu í gær, sem olli vonbrigðum fjárfesta. Viðskipti með bréf í félaginu námu rúmum 800 milljónum í lok dags - sem eru um tvöfalt meiri viðskipti en með bréf Icelandair.
Sem fyrr segir er rautt á nánast öllum tölum og lækkuðu bréf allra félaga, nema tveggja; Heimavalla og Marel. Virði bréfa í fyrrnefnda félaginu stóð í stað á meðan Marel hækkaði um 0,4 prósent.
Vendingar dagsins hafa að sama skapi bitnað á gengi krónunnar. Hún hefur veikst gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum; næstum prósent gagnvart evru og dönsku krónunni og um 0,4 gagnvart þeirri sænsku og pundinu. Bandaríkjadalurinn styrktist þó aðeins um 0,18 prósent í dag.