Skoðun

Prjónles

Guðmundur Brynjólfsson skrifar
Á dögunum rásaði ég eins og styggur hrútur inn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þaðan fór ég í fljúgandi stíu til útlanda.

Ég asnaðist til þess að taka með mér of stórt rakspíraglas. „Úps!“ sagði stúlkan í vopna- og eiturleitinni, „við verðum að henda því.“ Og svo horfði ég á eftir Dior í bláu glasi hverfa ofan í sorpsamfélagið – þar sem ilmurinn ræður ríkjum.

Þetta var mér einum að kenna. Stúlkan á flugvellinum vann sína vinnu af samviskusemi og á hrós skilið fyrir að láta ekki fegurð mína og dýra angan forfæra hug sinn og hleypa mér í gegn með vökvann dýra.

Ég hafði ekki setið lengi í háloftunum þegar kona mér með öllu framandi – en þó íslensk – tók upp prjónadótið sitt (mér sýndist þetta vera Anna og Clara bómullargarn – og konan breiðfirsk) hún sat næst mér á hægri hönd, en eiginkona mín við gluggann. Sú prjónglaða hafði skitugræna barnamussu, eða magabelti fyrir fullorðna, á prjónunum sem voru fjórir á lofti svellþykkir og drjúgt langir. Með spjótum þessum hefði konan, með viljastyrk og röskleika, geta drepið farþega í einum átta sætaröðum áður en flugfreyjan hefði getað sagt svo mikið sem „Saga shop“.

Ég varð hræddur og gerði mér upp migu til þess að komast fjær þessari kvinnu og talaði svo flugfreysku með augnagotum og varafettum við konu mína svo hún mætti skilja að ég vildi skipta við hana um sæti. Enda hentugra að hún verði jörðuð á undan mér því ég er vígður maður og kann meira inn á sálmaval fyrir útfarir og þess háttar bix en hún, sérkennarinn.

Hvers vegna má fara með fjóra 30 sentímetra prjóna í flug? – þegar það er ekki einu sinni verið að prjóna úr íslenskri ull.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×