Skoðun

Sátt um sjávarútveginn

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Skortur á forgangsröðun ríkisstjórnarinnar varð skýr þessa vikuna. Veiðigjaldafrumvarp ríkisstjórnarinnar var rifið út úr nefnd með enn frekari lækkun veiðigjalda til útgerða. Síðar í vikunni knúðu stjórnarflokkarnir fram lækkun framlaga til öryrkja og eldri borgara við fjárlagaumræðu. Skilaboðin eru merkilega skýr hjá ríkisstjórninni undir forystu sósíalista: Öryrkjar og eldri borgarar geta beðið en útgerðirnar ekki.

Við í Viðreisn höfum talað fyrir því að frjáls markaður sé best til þess fallinn að skila sanngjörnu verði til eigenda fiskveiðiauðlindarinnar – þjóðarinnar sjálfrar. Ekki er meirihluti fyrir því á Alþingi eins og er. Það er miður. Nokkuð breiður samhljómur er hins vegar um aðrar leiðir sem við höfum einnig talað fyrir sem vert er að ná samkomulagi um; tímabundna samninga og innviðauppbyggingu.

Vilji þjóðarinnar um eignarhald fiskveiðiauðlindanna og að framsal nýtingarréttarins sé tímabundið hefur ítrekað verið staðfestur. Því væri rétt að lögfesta endurgjald fyrir tímabundinn afnotarétt útgerðanna. Hættan á því að almannahagsmunir verði látnir víkja er raunveruleg eftir því sem dráttur á töku ákvörðunar er lengdur. Slíkt óréttlæti má ekki festast í sessi. Þess vegna þarf þetta skref, auk auðlindaákvæðis í stjórnarskrá.

Á undanförnum þremur áratugum hefur orðið mikil hagræðing og framleiðniaukning í sjávarútvegi. Færri og stærri sjávarútvegsfyrirtæki hafa styrkt þjóðarbúskapinn í heild og störfum við veiðar og vinnslu fækkað umtalsvert. Sömu áhrif hafa orðið af hagræðingu í landbúnaði. Þessi þróun mun halda áfram. Þéttbýlið hefur notið ávaxta af framþróun þessara tveggja atvinnugreina, sérstaklega sjávarútvegsins, en landsbyggðin hefur setið eftir. Þess vegna ætti að verja meginhluta af endurgjaldinu í uppbyggingarsjóð fyrir landshlutana sem skapa verðmætin og efla nýsköpun, þróun eða aðrar atvinnugreinar í samvinnu við sveitarstjórnir. Hér gæti verið um að ræða eitt stærsta framtakið til þess að jafna atvinnuþróun í landinu í áratugi. Tímabundnir samningar og uppbyggingarsjóður fyrir landsbyggðina eru fyrstu skrefin í átt að aukinni sátt um sjávarútveginn með almannahagsmuni í huga. Ef ríkisstjórnin treystir sér til þess.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×