Jón Ágúst Þorsteinsson var á ferð ásamt konu sinni og fjögurra mánaða gömlu barni þeirra þegar ósköpin dundu yfir en í bíl fyrir aftan þau var vinkona þeirra og með henni tveggja ára dóttir hennar. Þær hafi horft upp á bíl Jóns og fjölskyldu hverfa inn í snjóflóðið og náð að forða því að þeirra bíll færi sömu leið.
Jón og samferðafólk hans voru á leið úr veislu þegar atvikið átti sér stað. Hann lýsir því að veðrið á svæðinu hafi verið leiðinlegt, blint og skafrenningur, og í raun það versta sem af er vetri. Hann lýsir því þannig að skyggni hafi ekki verið gott. Allt í einu hafi hann séð svart fyrir framan sig og bílinn tekist á flug. Hann segist hafa áttað sig fljótt á því að þau hefðu lent í snjóflóði og að bakgrunnur hans úr björgunarsveitinni Sæbjörgu á Flateyri hafi hjálpað honum að takast á við aðstæðurnar.

Jón komst út úr bílnum í gegnum hliðarrúðu og þaðan aðstoðaði hann barn sitt og konu út úr bílnum. Jón segir að flóðið hafi komið frá þekktum stað, Selbólsurð, en þaðan hafa fallið mörg snjóflóð í gegnum tíðina. Það hafi í þetta sinn svo komið niður á Hvilftarströnd.
Í tilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum kemur fram að fjölmennt lið viðbragðsaðila hafi verið sent á vettvang. Vel hafi gengið að koma fólkinu af hættusvæði þar sem þau voru skoðuð af lækni og sjúkraflutningamönnum. Meiðsli þeirra eru lítið sem engin.
Í tilkynningunni segir jafnframt að veginum hafi verið lokað og verði ekki opnaður aftur í nótt. Þá var einnig tekin ákvörðun um að loka veginum um Súðavíkurhlíð vegna hættu á snjóflóðum.
Jón segir að fjölskyldan sé komin til tengdaforeldra hans og að þar muni þau vera í nótt. Aðstæður á vettvangi verða skoðaðar í birtingu á morgun.
Nánari upplýsingar um færð á vegum má finna á vef Vegagerðarinnar.