Uppsagnarbréf beið fimmtán starfsmanna WOW Air þegar þeir mættu til vinnu í morgun. Að sögn Svanhvítar Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúa WOW air, vinna flestir starfsmennirnir á flugvellinum í Keflavík og skýrir hún uppsagnirnar með vísan til árstíðabundinnar sveiflu.
Uppsagnirnar komu strax í kjölfar tilkynningar um kaup bandaríska fjárfestinarfélagsins Indigo Partners á hlut í WOW air en tengjast henni þó ekki með beinum hætti.
Ekki hefur verið gefið upp hversu stóran hlut Indigo Partners eignast í WOW air. Um er að ræða bráðabirgðasamkomulag sem er háð ýmsum fyrirvörum og kaupin eru því ekki frágengin ennþá. Í tilkynningu sem birtist á vefsíðu WOW air kemur fram að Skúli Mogensen muni áfram vera aðaleigandi Wow air en skilmálar samkomulagsins eru ekki gefnir upp að öðru leyti.
Indigo Partners eru með höfuðstöðvar í Phoenix í Bandaríkjunum. Félagið sérhæfir sig í fjárfestingum í lággjaldaflugfélögum og er dæmis aðalfjárfestirinn í Tiger Airways í Singapúr og Spirit Airlines á Flórída. Þá er Indigo einn stærsti hluthafinn í ungverska lággjaldaflugfélaginu Wizz air sem flýgur meðal annars til og frá Íslandi. Skúli Mogensen varð ekki við ósk um viðtal og bar fyrir sig trúnað gagnvart Indigo Partners.
Steinn Logi Björnsson, forstjóri fraktflugfélagsins Bluebird Nordic, hefur meira en tveggja áratuga reynslu af flugmarkaði en hann var um tuttugu ára skeið í framkvæmdastjórn Icelandair. Hann segir að Indigo Partners hafi fylgt sömu aðferðafræði í öllum flugfélögum sem fyrirtækið hefur fjárfest í.

Taka alla þjónustuliði út úr fargjaldinu
„Þeir hafa einbeitt sér að „ultra low cost" og það er gert með því að taka alla þjónustuliði út úr fargjaldinu. Það er allt selt. Það er mun lengra gengið en WOW air hefur gert. Þetta hafa þeir gert með Spirit í Bandaríkjunum og Wizz air og fleiri slík félög. Svo eru þeir með lægri launakostnað svo það er margt sem ekki endilega rímar í dag við WOW air. Það kemur fram í tilkynningunni að þeir hafi ákveðnar hugmyndir um þær breytingar sem þeir vilja ráðast í og ég hugsa að þær hljóti að vera í þessa átt,“ segir Steinn Logi.Flugfélögin sem Indigo Partners hefur fjárfest í hafa haft þrýst niður launakostnaði og eru laun hjá þessum félögum mun lægri en það sem gengur og gerist annars staðar. .
Munu íslenskir flugmenn sætta sig við slík laun? „Ég myndi halda að núverandi launakostnaður hjá WOW air samræmdist ekki þeirra hugmyndum um um ultra low cost félög svo maður spyr sig hvort þeir séu að horfa mikið til Íslands. Hvort þeir séu endilega að horfa mikið til tengibankans í Keflavík eða hvort þeir séu kannski meira að horfa á vörumerkið WOW air og beint flug yfir Atlantshafið (án viðkomu í Keflavík innsk.blm). Ef maður horfir á þau félög sem þeir hafa fjárfest í þá finnst manni það vera líklegra.“
Steinn Logi segir að bráðabirgðasamkomulag um kaupin sé ákveðin viðurkenning á þeim verðmætum sem felast í vörumerki WOW air og uppbyggingu félagsins á síðustu árum. „Ég held að árangurinn sem WOW hafi náð svona hratt felist í því að koma nafni WOW air á markað fyrir lægstu fargjöld. Það getur hins vegar falið í sér veikleika líka. Ef það er eina ástæðan til að fljúga með félaginu að þar séu lægstu fargjöld þá verður það erfitt þegar kostnaður snýst gegn mönnum, þegar eldsneytiskotnaður hækkar, gengið breytist og annað slíkt. En það má segja að markaðslega séð sé þetta mesti árangurinn hjá WOW air enda hafa stórir fjölmiðlar erlendis reglulega vísað til lægstu fargjalda WOW air í umfjöllun um lággjaldaflugfélög í flugi yfir Atlantshafið.“