Talið er að hin 32 ára gamla prinsessa hafi verið handsömuð er hún reyndi að flýja en vitni segja að yfirvöld í Dubai hafi sótt hana um borð í snekkju undan ströndum Indlands þann 4. mars síðastliðinn, og komið henni aftur til Dubai.
Í nýrri heimildamynd BBCer sagt frá flóttatilraun hennar og meðal þess sem kemur þar fram er að hún hafi eytt sjö árum í að skipuleggja flóttann. Í myndinni er rætt við franskan mann sem starfaði sem njósnari sem og finnskan dansþjálfara sem segjast hafa aðstoðað hana í flóttatilrauninni.
Ferðaðist 40 kílómetra á uppblásnum bát og sæþotu
Ástæða þess að Latifa tók sér svo mikinn tíma í að skipuleggja flóttann er sögð vera sú að hún hafi reynt að flýja er hún var sextán ára. Þá var hún hins vegar handsömuð og látin dúsa í fangelsi í þrjú ár. Í myndbandi sem Latifa birti skömmu áður en hún hvarf greindi hún frá því að hún hafi mátt þola pyntingar í fangelsinu.Systir hennar var einnig handsömuð árið 2000 eftir að hún reyndi að flýja og því var Latifa vör um sig. Reyndi hún að skipuleggja flóttann eins vel og hún gat. Hafði hún samband við franska njósnarann fyrrverandi, Hervé Jaubert, árið 2011, þar sem hún hafði heyrt að honum hafi tekist að komast undan yfirvöldum í Dúbaí. Jaubert hjálpaði henni svo að skipuleggja flóttatilraunina.
Í heimildarmyndinni segir að Latifa hafi, ásamt finnska danskennaranum Tiina Jauhiainen, keyrt til nágrannaríkisins Óman, daginn sem flóttatilraunin hófst. Því næst var áætlað að ferðast á uppblásnum bát og sæþotum um 40 kílómetra leið að snekkju á Indlandshafi þar sem Jaubert beið.

Í umræddu myndbandi ræðir hún um hvað muni gerast ef hún yrði handsömuð á ný.
„Ef þú ert að horfa á þetta myndband þá er það ekki gott. Það þýðir að ég er annað hvort dáin eða í mjög, mjög slæmum aðstæðum,“ sagði Latifa en myndbandið átti einungis að birta ef hún yrði handsömuð.
Í frétt Guardian segir að yfirvöld í Dúbaí hafi ekki í hyggju að bregðast við heimildarmyndinni. Þá er einnig vitnað í frétt frá apríl þar sem haft er eftir talsmanni fjölskyldunnar að Latifa sé í faðmi fjölskyldunnar og „hafi það mjög gott“.