Skoðun

Eitt leyfisbréf afturför til fortíðar

Guðríður Arnardóttir skrifar
Það var ekkert út í loftið sem lögum nr. 87 frá 2008 var breytt á sínum tíma en þau fjalla um menntun kennara í leik-, grunn- og framhaldsskólum. Með lögunum voru sett skýr gæðaviðmið um menntun kennara á öllum skólastigum, námið lengt í fimm ár og inntak námsins skilgreint sérstaklega.

Hvað framhaldsskólann varðar þá hefur útgáfa leyfisbréfa verið bundin við tiltekna faggrein frá árinu 1998 og leyfi til kennslu í framhaldsskóla því bundið við tilteknar kennslugreinar. Lögin voru mikið framfaraskref frá eldra kerfi sem skilgreindi ekki þá nauðsynlegu sérhæfingu sem framhaldsskólakennarar þurfa að hafa.

Innan framhaldsskólans eru kenndar á annað hundrað mismunandi greina. Bóklegar greinar í hug- og raunvísindum sem og iðn-, list- og verkgreinar. Það segir sig sjálft að í framhaldsskólanum er sérhæfing námsins orðin það mikil að megin áhersla í námi framhaldsskólakennara er fagmenntunin.

Lögunum frá 2008 var einmitt ætlað að ramma inn þá augljósu staðreynd.

Hugmyndir um eitt leyfisbréf til kennslu á skólastigunum þremur ganga því gegn núverandi lögum um menntun og ráðningu kennara og yrðu þær hugmyndir að veruleika yrði stigið stórt skref aftur á bak í menntun kennara og langt aftur fyrir árið 2008.

Félag framhaldsskólakennara hefur ályktað gegn útgáfu eins leyfisbréfs og telur það gríðarlega afturför til fortíðar m.a. í ljósi þeirra gæðaviðmiða sem sett voru um menntun framhaldsskólakennara árið 2008.

Forysta leik-, og grunnskólakennara hefur aftur á móti tekið jákvætt í slíkar hugmyndir. Það má vera að það sé raunhæft að gefa út eitt leyfisbréf til kennslu í leik-, og grunnskóla, það er annarra en mitt að svara því. En hvað framhaldsskólann varðar verður ekki séð með nokkrum hætti réttlætingu á því að hverfa frá útgáfu sérhæfðra leyfisbréfa og um leið draga úr kröfum um lágmarks fagmenntun í hverri kennslugrein.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×