Skoðun

Tíminn

Guðmundur Brynjólfsson skrifar
Það er óþarfi að flýta sér. Tíminn er ekki til. Hann er ekki annað en minningar okkar og svo væntingar, spádómar. Orð yfir dásamlega loftkennd hugtök sem þýða eitt í þínum huga en annað í mínum.

Tíminn er ekki! Því er óþarfi að hlaupa í búðir og fá andarteppu í hægfara rúllustigum. Ástæðulaust að grenja í biðröðum. Tilgangslaust að keyra yfir á rauðu ljósi til þess að ná að sýna börnunum risavaxið piparkökuhúsaþorp á stærð við Grenivík í reðurlaga verslunarmiðstöð, eða til þess að ná að kaupa stærsta grenitréð í Alaska við Miklatorg sem er þar ekki lengur og því óþarfi að bíða eftir því að heyra: „Hvar fáum við jólatré og skreytingar? Í Alaska. Hvar fáum við blóm og gjafavöru? Í Alaska, gróðrarstöðinni við Miklatorg.“ Þetta er farið. Búið. Þú nærð þessu aldrei og því viturlegra að stoppa á rauðu og slökkva á auglýsingunum í útvarpinu og gjafaleikjunum. Hlustaðu frekar á suðið í krakkanum sem er njörvaður niður í evrópusambandsvottaðan barnabílstól svo barnið geti lifað öll högg tímakapphlaupsins sem þú kennir því samviskusamlega, óaflátanlega. Suðið um eiturslímið sem freyðir eins og keyta þegar drekinn með svörtu augun ælir því ofan í gjótuna ógurlegu og brennir þannig upp börn djöfulsins sem fylgja í sérstakri plastpakkningu og notast við AAA-rafhlöður sem þarf að kaupa aukalega.

Tíminn er ekki til og því óþarfi að kaupa rándýr námskeið um núvitund. Núið myndi fylgja tímanum væri hann til, líkt og þáið og sennið. Skrýtin orð um undursamlega loftkennd hugtök sem kaupmennska, kapítalismi og vélvæðing hafa komið inn hjá þrælum sínum. Tíminn er ekki til og hefur aldrei verið til. Þú bara heldur það, þú bara heldur það á hlaupum.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×