Rúmlega 51 prósent landsmanna eru hlynnt afsögn Ágústs Ólafs Ágústssonar, þingmanns Samfylkingarinnar. Þá eru rúmlega 31% í meðallagi hlynnt eða andvíg afsögn Ágústs og 17 prósent andvíg afsögn. Þetta kemur fram í könnun Maskínu sem fram fór 14. til 28. desember síðastliðinn.
Ágúst Ólafur fór í tveggja mánaða launalaust leyfi frá þingstörfum í desember. Hann tilkynnti um ákvörðunin á Facebook og sagðist hafa orðið sér til háborinnar skammar með framkomu sinni gagnvart konu sem hann hitti á bar. Bára Huld Beck, blaðamaður á Kjarnanum, steig í framhaldinu fram og taldi sig knúna til að leiðrétta frásögn Ágústs Ólafs.
Er reiknað með því að Ágúst snúi aftur til þingstarfa í febrúar.
Mun fleiri voru hlynntir afsögn sexmenninganna úr Miðflokknum og Flokki fólksins í desember í kjölfar ummæla sem féllu á Klaustur bar. Í könnun sem Maskína framkvæmdi fyrr í desember voru 74-91 prósent hlynnt afsögn en mishlynntir eftir því hver sexmenninganna átti í hlut.
Með hækkandi aldri eru Íslendingar líklegri til þess að vera andvígir afsögn þingmannsins. Þeir sem lokið hafa framhaldsskólaprófi eða iðnmenntun eru hlynntastir afsögn Ágústs Ólafs og háskólamenntaðir andvígastir eða rúm 19 prósent.
Íslendingar með heimilistekjur lægri en 550 þúsund krónur eru hlynntastir því að Ágúst Ólafur segi af sér eða um 60 prósent. Tekjuhæsti hópurinn er andvígastur afsögn hans eða 25,5 prósent. Kjósendur Framsóknarflokksins og Pírata eru hlynntastir afsögn hans en kjósendur Miðflokksins andvígastir.
Svarendur voru 817 talsins og komu úr Þjóðgátt Maskínu sem er þjóðhópur fólks dreginn með tilvlijun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Fólkið er af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri.
