Ríkissjóður á 100 prósent hlutafjár í Íslandsbanka og rúmlega 98 prósent hlutafjár í Landsbankanum. Í hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið er ítarleg umfjöllun um þá valkosti sem stjórnvöld hafa vegna eignarhalds á bönkunum og síðar sölu þeirra. Er þar mælt með skráningu og sölu í gegnum skipulegan verðbréfamarkað en bæði írska og hollenska ríkið fóru slíka leið með hluta af þeim bréfum sem runnu í faðm þessara ríkja eftir alþjóðlegu fjármálakreppuna.
Í hvítbókinni er fjallað nokkuð um reynslu af skráningu Arion banka en bankinn var skráður samtímis með tvíhliða skráningu í kauphöllunum í Reykjavík og Stokkhólmi á síðasta ári. Þar segir: „Skynsamlegt getur verið að horfa til tvíhliða skráningar við sölu á eignarhlutum ríkisins í bönkunum. Arion banki var skráður í tveimur kauphöllum, í Reykjavík og Stokkhólmi, sem jók þátttöku erlendra fjárfesta í útboðinu.“
Höskuldur Ólafsson bankastjóri Arion banka segir að útboðið hafi heppnast afar vel. „Núna eru um sex mánuðir frá því að skráningin kláraðist í júní í fyrra. Þar voru seld 30 prósent hlutafjár í bankanum fyrir 38 milljarða króna. Útboðið gekk mjög vel og það var margföld umframeftirspurn frá erlendum og íslenskum fjárfestum. Sjötíu prósent af því sem var selt var selt erlendum fjárfestum í Bandaríkjunum, Bretlandi, Þýskalandi og Svíþjóð,“ segir Höskuldur.
Kómískt að heyra í sumum
Höskuldur segir að eina neikvæða við útboðið hafi verið á skortur bréfum til sölu. Hann segir umræðuna á Íslandi um lítinn áhuga útlendinga á íslensku bankakerfi vera furðulega í ljósi þess hversu vel tvíhliða skráning Arion banka heppnaðist og hversu mikinn áhuga útlendingar höfðu á hlutabréfum bankans.„Það var vantrú á Íslandi. Manni finnst dálítið kómískt að heyra í sumum ennþá nú þegar það er búið að sýna fram á að það er hægt að selja svona stóran hlut í íslenskum banka erlendis og það er margföld uframeftirspurn. Þess vegna finnst mér úrtöluraddirnar svona heldur háværari en ég hefði talið við hæfi,“ segir Höskuldur.
Myndir þú ráðleggja íslenskum stjórnvöldum að fara þessa leið sem þið fóruð við sölu á eignarhlutum í bönkunum?
„Ég held að við getum alveg mælt með því. Ég held að við höfum sýnt fram á að það var mikill áhugi. Og ég held að það sé áfram áhugi á að fjárfesta í bönkum hér á landi og íslenskum fyrirtækjum. Það þarf að horfa á markaðinn, hann auðvitað hreyfist og hann er óhagfelldari núna en þegar við fórum út í fyrra. En með góðum undirbúningi, eins og var raunin hjá okkur, þá held ég að svona sala geti gengið vel fyrir sig og verið jákvæð fyrir fjármálaumhverfið okkar hérna.“
Sala á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka og Landsbankanum er hins vegar ekki á dagskrá á yfirstandandi þingi. Ríkisstjórnin ákvað á dögunum að fresta því að leggja fram frumvarp til breytinga á lögum um sölumeðferð á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.
„Mér finnst mjög mikilvægt að það komi fram að ríkisstjórnin hefur engar ákvarðanir tekið um næstu skref. Við viljum gera þetta í réttri röð,“ sagði Bjarni Benediktsson í fréttum okkar í gær.