Tveir bílar, sem komu úr gagnstæðri átt, rákust á á veginum um Ljósavatnsskarð á fimmta tímanum í dag. Fjórir voru í bílunum tveimur sem höfnuðu báðir utan vegar. Tveir eru alvarlega slasaðir eftir áreksturinn en þó ekki taldir í lífshættu. Hinir tveir eru minna slasaðir en allir voru fluttir á sjúkrahús á Akureyri.
Beita þurfti klippum til að ná bílstjóranum úr öðrum bílnum. Einn til viðbótar var í þeim bíl en bæði hann og bílstjórinn slösuðust alvarlega.
Átti þessi árekstur sér stað við bæinn Háls en veginum hefur verið lokað á meðan viðbragðsaðilar vinna á vettvangi. Reiknað er með að hann verði opnaður aftur um klukkan 18.
Uppfært 18:11: Búið að opna veginn að nýju.
