Jóhann Hilmar Haraldsson, rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir í samtali við fréttastofu að tilkynning um flóðið hafi borist rétt fyrir klukkan hálf ellefu í morgun.

„Vegurinn verður lokaður eitthvað fram eftir degi á meðan aðstæður eru metnar. Það er komið ruðningstæki á svæðið og líka aðilar frá björgunarsveit og lögreglu.“
Í vefmyndavélum Vegagerðarinnar klukkan 11:15 mátti sjá bílaröð sem myndast hafði enda vegurinn lokaður.
„Eins og er þá fer enginn þarna í gegn, og engin hjáleið um.“

Reynir Gunnarsson, rekstrarstjóri Vegagerðarinnar á Hornafirði, sagði í fréttum Stöðvar 2 í október 2017 að vegurinn væri afar hættulegur.
„Það er stórhættulegur vegur um skriðurnar og veðravíti þar, - sem verður svo sem aldrei hægt að laga. Þetta verður aldrei örugg leið út af grjóthruni,“ sagði Reynir.
Leiðin um Hvalsnes- og Þvottárskriður var opnuð fyrir um fjörutíu árum en áður lá þjóðvegurinn um Lónsheiði. Það gæti því farið svo að þar yrði framtíðarleiðin á ný en Reynir sagði enga spurningu að göng yrðu til mikilla bóta.
