
„Við verðum líka að kenna börnunum okkar þessa gagnrýnu hugsun því að við erum ekki alltaf að horfa yfir öxlina á þeim. Og eigum ekki að gera það. En auðvitað þarf að setja einhverjar girðingar og tálma til að vernda börn upp að skynsamlegu marki,“ segir Hrefna.
Til eru forrit á borð við Family link frá Google sem gerir foreldrum kleift að fylgjast með því hvaða forrit börn sækja í símann sinn. Hrefna segir fræðslu og samtal þó gegna lykilhlutverki.
„Við þurfum líka að átta okkur á að það er aldrei hægt að koma í veg fyrir allt með einhverjum, til dæmis nettólum eða öðru til að fylgjast með börnum. Það hjálpar upp að vissu marki en við þurfum líka að sinna þessu hlutverki okkar að ala þau upp,“ segir Hrefna.
En það eru ekki bara stefnumótaforritin sem virðast njóta aukinna vinsælda meðal krakka og unglinga en fréttastofu hafa borist ábendingar um Instagram-aðganga þar sem birtar eru viðkvæmar myndir og myndbönd af ungum krökkum í svipuðum tilgangi. Þar getur hver sem er meðal annars séð myndbönd af ungum krökkum að kyssast eða í djörfum stellingum.
„Sendið okkur myndir af einhverjum í sleik og við póstum þeim,“ segir til að mynda í lýsingu fyrir Instagram-aðganginn sleikur_island. Sambærileg skilaboð má sjá á Instagram-aðgöngunum date.island, date_island og flex_island svo dæmi séu nefnd. Tekið er víða fram að hægt sé að óska eftir því að myndir og myndbönd séu tekin út sé þess óskað.
„Við verðum alltaf að vera vakandi fyrir þessu og það er hlutverk foreldra en líka mikilvægt að skólarnir taki þátt í að fræða börnin,“ segir Hrefna.