Atburðarásin hefur verið hröð síðan á þriðjudagkvöld, þegar Kveikur greindi frá því að bílaleigan Procar hafði átt við kílómetrafjölda þeirra bíla sem hún seldi á milli áranna 2011 og 2016.
Procar hefur verið vikið úr Samtökum ferðaþjónustunnar, fyrrum viðskiptavinir bílaleigunnar íhuga að leita réttar síns auk þess sem kaupendur hafa skilið bíla sem þeir keyptu af Procar fyrir utan skrifstofu fyrirtækisins.
Nú síðast í gærkvöldi greindi Morgunblaðið frá því að alþjóðlega bílaleiguvefsíðan Auto Europe hafi ákveðið að hætta viðskiptum við Procar. Vefsíðan er sögð hafa verið mikilvægasti samstarfsaðili Procar og veigameiri en nokkur annar milliliður í því að skaffa bílaleigunni viðskipti erlendra ferðamanna.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir fjölda félagsmanna hafa leitað aðstoðar hjá samtökunum síðustu daga. Ekki aðeins áhyggjufullir viðskiptavinir Procar heldur einnig fólk sem keypti bíl af öðrum bílaleigum.
„Það hafa margir félagsmenn leitað til okkar í vikunni varðandi þetta mál. Fólk er yfirleitt að spyrjast fyrir, kannað hvort þeirra bílar gætu mögulega hafa verið meðal þeirra sem átt hefur verið við og fólk er náttúrulega áhyggjufullt og er að kanna stöðu sína,“ segir Breki.
Neytendasamtökin hafi kallað eftir upplýsingum frá bílaumboðum og vinni nú að gerð gátlista sem ætlað er að aðstoða fólk við að meta hvort átt hafi verið við kílómetramæla í bílunum þeirra.
„Við höfum sent út fyrirspurnir til umboða um það hvernig og hvort er hægt að sjá hvort átt hafi verið við kílómetramælinn og munum taka það saman og birta á vefnum okkar snemma í næstu viku,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.