Engin öskur og engir gaddar
„Skólinn fékk beiðni um að útvega stóran hóp nemenda í innslag sem verður sýnt á milli atriða í Eurovision á laugardaginn. Innslagið tengist lagi Hatara. Innslagið er að sögn þess sem bað skólann um þetta ekki tengt því sem Hatarar eru að boða. Miklu fremur er það mótvægi við þann boðskap,“ segir Þorkell Daníel meðal annars í bréfi sínu.Eins og vart ætti að þurfa að nefna þá hefur atriði Hatara í Söngvakeppni sjónvarpsins vakið mikla athygli og er umdeilt. Ýmist eru menn mjög ánægðir með það eða hreinlega óar við því. Og æsast nú leikar því sungið verður til úrslita á laugardaginn og keppt um hver verður fulltrúi Íslands í Eurovision í maí í Tel aviv í Ísrael.
Þorkell skólastjóri lýsir því jafnframt að krakkarnir verði í bláum íþróttagöllum en ekki sviðsbúningum. Og segir:

Mjúkir menn í Hatara
Vísir ræddi við Matthías Tryggva Haraldsson söngvara Hatara og spurði hann hvað væri eiginlega í gangi; hvort það ætti að nota börnin og þá jafnvel með vafasömum hætti? Matthías sagði það alls ekki svo, reyndar þvert á móti. Hann útskýrði að þetta væri að undirlagi RÚV – í fullu samráði við stofnunina, um er að ræða innslag, myndbrot sem sýnt yrði sem einskonar upptaktur áður en þeir færu á svið á laugardaginn.„Við ætlum að sýna á okkur mýkri hliðar, leika við börnin, baka köku og láta ástina blómstra sem mest áður en „hatrið“ sigrar endanlega. Við viljum sýna Íslendingum að undir þessari hörðu skel búa mjúkir og góðir menn,“ segir Matthías Tryggvi.