Er þetta ekki í fyrsta skiptið sem málefni City Park Hotel rata í fjölmiðla en í október síðastliðnum ákvað Vinnueftirlitið að banna alla vinnu hjá City Park Hótel. Hafði eftirlitsheimsókn Vinnueftirlitsins leitt í ljós að aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi starfsmanna hefði ekki verið í samræmi við lög og reglur.
Vinnueftirlitið mat það svo að veruleg hætta væri fyrir líf og heilbrigði starfsmanna á byggingarvinnustaðnum.
Var um að ræða byggingarframkvæmdir við hótelið sem voru í gangi á verkstað án byggingarleyfis frá Reykjavíkurborg, að því er fram kom í ákvörðun Vinnueftirlitsins, og merki um að starfsmenn sofi og hafist við á verkstað.

Ástand rafmagnsmála á verkstað var mjög hættulegt að mati Vinnueftirlitsins en rafmagnssnúrur voru hangandi niður úr loftum og ótryggir rafmagnskaplar á milli hæða og í rafmagnstöflu. Slysahætta var af þessu fyrir starfsmenn.
Þá taldi Vinnueftirlitið umferðarleiðir á milli á verkstað ófullnægjandi. Starfsmenn þurftu að fara um brattan stiga án handriða. Voru óvarin op í gólfi og við umferðarleiðir og vantaði fallvarnir við op á gólfi. Skapaði þetta slysahættu fyrir starfsmenn að mati eftirlitsins.
Þá var notkun persónuhlífa ábótavant þar sem starfsmenn voru ekki í öryggisskóm né með hjálma við vinnu sína.