Mannréttinda- og lýðræðisráð Reykjavíkurborgar samþykkti í lok síðustu viku að hætta nú þegar notkun blárra ljósa á salernum í húsnæði borgarinnar og leita samkomulags við leigjendur húsnæðis í eigu borgarinnar um hið sama. Rannsóknir hafa sýnt fram á að lýsingin fæli fólk ekki frá því að nota vímuefni í æð á salernum.
Svala Jóhannesdóttir, verkefnastýra Frú Ragnheiðar hjá Rauða krossinum í Reykjavík, fagnar ákvörðuninni.
„Fólk mun hvort sem er nota vímuefni í æð. Hvort sem það eru blá ljós á salerninu eða ekki.“ Þetta hafi rannsóknir sýnt fram á, sem og skjólstæðingar hennar sagt henni.
„Ljósin valda því að fólk stingur oftar inn í æðina til þess að reyna ná inn í æð og það getur valdið meiri blæðingu sem getur síðan orðið eftir inn á salerninu.“ Það valdi því að notandinn sé líklegri til að fá sár og sýkingu.

„Heilbrigðiskerfið okkar er einnig að nota þessi bláu ljós og önnur sveitarfélög, í þeirri von að fólk muni ekki nota vímuefni í æð.“
Svala leggur til að aðilar taki Reykjavíkurborg til fyrirmyndar og hugi að öryggisþáttum þegar kemur að almenningssalernum.
„Ég hvet heilbrigðisyfirvöld og önnur sveitarfélög og einkarekin fyrirtæki að huga að þessu. Því það sem er öruggast fyrir alla á almenningssalernum er að vera með góða lýsingu og nálabox þannig að notandinn geti skilað af sér sprautubúnaðinum á öruggum stað.“