Önnur myndin er úr tónlistarmyndbandi poppstjörnunnar Justin Bieber sem birt var á Youtube í nóvember 2015. Hin myndin, sem tekin var í janúar 2018, sýnir skilti við snösina þar sem tilkynnt er um lokun svæðisins.
Ekki verður annað sagt en munurinn á því hvernig svæðið var fyrir Bieber og svo eftir hann sé sláandi eins og sjá má í færslunni hér fyrir neðan.
Fjaðrárgljúfur er einmitt lokað fyrir umferð þessa dagana sem og hluti af Skógaheiði við Skógafoss þar sem veruleg hætta er á skemmdum sökum tíðarfars og mikillar umferðar um svæðin.
Um þessar mundir er nefnilega einn viðkvæmasti tími ársins þegar kemur að umferð gesta um íslenska náttúru eða eins og segir í færslu Umhverfisstofnunnar:
„Snjóalög og frost hopa fyrir leysingum og þarf ferðafólk að sýna aðgát til að koma í veg fyrir að umferð þess skilji eftir sig ummerki í náttúrunni.
Hér má sjá tvær myndir af sömu klettasnösinni við Fjaðrárgljúfur, teknar með rúmlega 2 ára millibili. Sú fyrri er úr myndbandi poppstörnunnar Justin Bieber við lagið I´ll Show You, í september 2015. Sú síðari, sem sýnir nýlegt skilti við snösina, er tekin í janúar 2018.
Eins og sjá má hefur reglum ekki verið fylgt til hins ítrasta - töluvert hefur verið gengið út fyrir merkta gönguslóða og framhjá skiltinu.
Með samanburði á myndunum tveimur sést einnig mikill munur á ástandi gróðurþekjunnar á snösinni.
„Þetta eru hreinar gróðurskemmdar sökum ágangs á viðkvæmu svæði,“ segir Daníel Freyr Jónsson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun. „Sumir gestir virða því miður reglur svæðisins að vettugi. Það eru fjölmargar snasir í sama ástandi við gljúfrið í dag.““