Bretland er mikilvægur útflutningsmarkaður fyrir íslensk fyrirtæki en samningurinn tryggir áframhaldandi útflutning um 55.000 tonna af sjávarafurðum til Bretlands á sömu tollkjörum og gilda í dag.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, segir í samtali við fréttastofu að samningurinn hafi legið fyrir í einhvern tíma hvað Ísland varðar en bætir við að hann hafi verið að bíða eftir að fulltrúar Noregs og Bretlands næðu að hnýta lausa enda. Það hafi náðst í kvöld.
„Réttindi borgaranna eru tryggð bæði Íslendingar í Bretlandi og Bretar á Íslandi og sömuleiðis loftferðirnar, sem er náttúrulega gríðarlega mikilvægt, og núna vöruviðskiptin þannig að við erum búin að hnýta alla þá enda sem við mögulega getum,“ segir Guðlaugur.
Guðlaugur segist hafa verið að undirbúa þjóðina fyrir mismunandi sviðsmyndir sem fylgir óvissunni sem hefur verið uppi í tengslum við Brexit. Hann segir að það sé þó nokkuð síðan Ísland kláraði samninga við Breta ef þeir færu úr ESB með samning en bætir við að í kvöld hefðu náðst samningar þess efnis að tryggja óbreytt fyrirkomulag fari það svo að Bretar fari úr ESB án samnings. Guðlaugur kemur til með að skrifa undir samninginn á næstu dögum.
BREAKING: Our negotiators have just initialled a trade agreement with Iceland & Norway for the European Economic Area. This is the 2nd biggest agreement we're rolling over and trade with EEA is worth nearly £30bn. This is on top of the agreement we’ve signed with Liechtenstein.
— Dr Liam Fox MP (@LiamFox) March 18, 2019
Guðlaugur segist vera afar ánægður með samstarfið við Breta og er það til efs að það hafi nokkurn tíman verið jafn gott og nú.
Nú sé Ísland búið að tryggja réttindi sín til skamms tíma en næsta verkefni er að ganga frá framtíðarsamningi við Breta.
„Það er verkefni sem við hlökkum til að takast á við. Samstarfið er búið að vera mjög gott. Við erum búin að ganga frá því sem þarf að gera, sama hvaða sviðsmynd kemur upp og það er alveg skýr vilji frá báðum aðilum til að styrkja samstarf þjóðanna enn frekar með framtíðarsamningi,“ segir Guðlaugur.