Viðar Örn Kjartansson mun spila með sænska úrvalsdeildarliðinu Hammarby næstu mánuði. Hammarby staðfesti komu framherjans í dag.
Viðar kemur á láni frá Rostov í Rússlandi, en hann var keyptur þangað í lok félagsskiptagluggans síðasta sumar.
Lánstíminn er til 15. júlí.
Tímabilið í Svíþjóð hefst um komandi mánaðarmót en Hammarby hafnaði í 4. sæti í úrvalsdeildinni síðasta tímabil.
Viðar fékk fá tækifæri í Rússlandi og segir að eftir á að hyggja hafi verið mistök að fara þangað.
„Það voru mistök að koma hingað því þjálfaranum vantaði aldrei framherja eins og ég er. Ég efast um að þjálfarinn hafi viljað fá mig og þá endar það ekki vel,“ sagði Viðar í samtali við Fótbolta.net.
