„Kyrrsetning Boeing MAX þota um heim allan hefur veikt stöðu Icelandair og jafnvel hækkað virði WOW air þar sem félagið notast við Airbus flugvélar,“ segir Kristján í grein um málið.
Þar eru raktar viðræður Skúla við bæði Icelandair og bandaríska auðkýfinginn William Franke, stjórnanda Indigo Partners. Því er lýst hvernig stefni í að hlutur Skúla í WOW verði lítill eða jafnvel enginn. Þessi slæma samningsstaða Skúla skýri afhverju hann hafi leitað aftur til Icelandair um síðustu mánaðamót.
„Skúli virðist því vera í nærri vonlausri stöðu en gæti sloppið úr WOW ævintýrinu með einhverri reisn ef félagið fer ekki á hausinn,“ segir á turisti.is.

„Franke hefur líka sýnt að hann er ekki aðeins harður í samningaviðræðum við menn eins og Skúla heldur líka almennt starfsfólk,“ segir Kristján og rifjar upp samskipti hans við flugliða bandaríska flugfélagsins Frontier, sem Indigo Partners eigi.
„Stórskuldugt og nærri eignalaust flugfélag er því ekki fýsilegur fjárfestingakostur eins og endurspeglast í kröfu Indigo Partners um helmings afskriftir skuldabréfaeigenda og smánarlegan hlut fyrir Skúla. Það er því ekki að undra að forsvarsfólk Icelandair hafi tekið fálega tilboði forsvarsfólks WOW um nýjar samningaviðræður um síðustu mánaðamót.
Síðan þá hefur staða Icelandair hins vegar veikst vegna kyrrsetningar á Boeing MAX þotum félagsins. Stjórnendur þess sjá nú fram á að þurfa að gera breytingar á leiðakerfi sínu og jafnvel skera niður sumaráætlunina. Forstjórinn segir það til skoðunar að leigja flugvélar til að stoppa upp í götin sem MAX þoturnar skilja eftir sig en leiðakerfi Icelandair, frá og með vorinu, byggir á flugflota sem samanstendur af níu MAX þotum,“ segir Kristján ennfremur.

Flækjan sem blandaður flugfloti veldur er líka eitthvað sem stjórnendur Icelandair hafa vegið og metið, bæði þegar þeir keyptu WOW í nóvember og eins þegar þeir gáfu út að framundan væru viðræður við bæði Boeing og Airbus um kaup á flugvélum. Í ljósi vandræðanna með MAX þoturnar þá gæti samstarf við franska flugvélaframleiðandann verið meira lokkandi í dag en það hefur hingað til verið. Og þá gæti verið akkur í því fyrir Icelandair að taka yfir samninga flugmanna WOW air sem þekkja frönsku flugvélarnar inn og út," segir ritstjóri Túrista.

Skuldastaða WOW air er þó væntanlega ennþá verri en framhjá því verður ekki horft að einn stærsti kröfuhafinn, jafnvel sá stærsti, er íslenska ríkið í gegnum eign sína í Isavia. Ógreidd lendinga- og farþegagjöld WOW á Keflavíkurflugvelli gætu nefnilega numið umtalsverðum upphæðum eins og forstjóri Icelandair viðraði í ræðu sinni í síðustu viku.
Með eftirgjöf á þeirri skuld gæti ríkið komið í veg fyrir þann álitshnekki sem fall WOW myndi valda eða staðið vörð um að flugrekstur hér landi byggðist á íslenskum áhöfnum sem vinna samkvæmt íslenskri vinnulöggjöf. Enginn veit nefnilega á hvaða forsendum framtíðarsýn Indigo Partners fyrir WOW air byggir, eins og áður er rakið,“ segir í grein Kristjáns Sigurjónssonar á turisti.is.