Frá þessu er greint á vef Landlæknisembættisins. Þar segir jafnframt að bólusetningarátak á Austurlandi og á höfuðborgarsvæðinu hafi gengið afar vel. Um helgina voru um 500 manns bólusettir á Austurlandi og um 2500 á höfuðborgarsvæðinu. Þá er von á meira bóluefni til landsins um miðja þessa viku.
Áfram verður bólusetning í boði á Austurlandi og á höfuðborgarsvæðinu fyrir forgangshópa. Þeir eru:
- Allir sem eru óbólusettir og fæddir á bilinu 1. janúar 1970 – 1. september 2018 (6 mánaða – 49 ára)
- Þeir einstaklingar sem útsettir hafa verið fyrir mislingasmiti ásamt þeirra nánasta umgangshópi.
Samtals hafa fimm einstaklingar greinst með mislinga frá því 18. febrúar síðastliðinn, tvö börn og þrír fullorðnir. Mislingasmit barst hingað til lands með manni sem ferðaðist heim frá Filippseyjum um miðjan febrúar.
Bryndís Sigurðardóttir smitsjúkdómalæknir ræddi mislingafaraldinn í útvarpsþættinum Bítinu á Bylgjunni í morgun. Viðtalið má heyra í spilaranum hér að neðan.