Þetta segir Drífa Snædal, forseti ASÍ, um verkföll sem standa nú yfir hjá VR og Eflingu.
Hún segir að það sé tvennt sem sé hornsteinn verkalýðsbaráttu um heim allan, annars vegar rétturinn til að bindast samtökum í stéttarfélögum og hins vegar rétturinn til að leggja niður störf til að knýja á um betri kjör.
„Það er mjög alvarlegt að vega að þessum rétti og reyna að dempa eða komast hjá aðgerðum sem launafólk á sannarlega rétt á að beita,“ segir Drífa um réttindin sem eru varin í lögum og stjórnarskrá og eru grundvöllur alþjóðasáttmála um vinnumarkað.
Krefjast virðingar og bættra kjara
Drífa segir mörg fyrirtæki bera sig illa þessa dagana og bætir við að blikur séu á lofti í ferðaþjónustunni.„Það hefur hins vegar verið ljóst um langt skeið að vinnandi fólk er að rísa upp og krefjast virðingar og bættra kjara og aukins jöfnuðar. Það er því ekki bara krafa dagsins í dag heldur til framtíðar að fyrirtæki og stjórnvöld hlusti og taki mark á þessum kröfum í öllum sínum störfum. Það er hættuspil að hlusta ekki á almenning og mæta ekki kröfum um aukinn jöfnuð, ekki bara hér á landi heldur um heim allan“