Miðflokkurinn stelur fylgi frá Sósíalistum
Svo virðist að Miðflokkurinn sé að ná vopnum sínum eftir dýfu sem fylgið tók og rekja má til Klausturmálsins svokallaða.Lítil hreyfing er á fylgi annarra flokka nema að fylgi Sósalistaflokksins minnkar um rúmlega eitt prósent frá síðustu könnun, en nú segjast tæp fjögur prósent vilja kjósa flokkinn. Því er það svo, ef menn vilja lesa hreyfingar á fylgi í þetta, beint af augum, að svo virðist í fljótu bragði að Miðflokkurinn sé að stela fylgi frá Sósíalistum. Hvað skýrir þær vendingar liggur hins vegar ekki fyrir.

Landsmenn ánægðir með ríkisstjórnina
Þá kemur fram, í tilkynningu frá Gallup, að rúm 13 prósent myndu skila auðu eða kjósa ekki. Tæplega 10 prósent taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp.Einnig kemur fram að sitjandi ríkisstjórn nýtur meiri stuðnings en samanlagt fylgi þeirra flokka er sem að henni stendur eða 48 prósenta fylgis. Sem er talsvert meira fylgi en forverar hennar nutu þegar verst lét á þeim bæ. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartar framtíðar mældist með 30 prósenta stuðning þegar hún fór frá völdum og ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar á árunum 2013 til 2016 var með 37 prósenta fylgi. Af þessu má ráða í þeim samanburði að landsmenn séu tiltölulega ánægðir með ríkisstjórnina sem siglir þannig lygnan sjó.