Uppsveifla er á Blönduósi um þessar mundir vegna smíði gagnavers. Það væri þó ekki að rísa án Blönduvirkjunar.
„Án hennar væri þetta ekki að rísa. Því að ef við horfum bara á landskerfið, raforkukerfið, þá er þetta eiginlega eini staðurinn fyrir utan suðvestursvæðið sem hægt er að afgreiða rafmagn í einhverju magni,“ segir Valgarður Hilmarsson, umsjónarmaður gagnaversverkefnis á Blönduósi.

„Í hönnun var hún 720 gígavattstundir. En svo hefur verið meira vatn á ferðinni, hún hefur farið yfir 900 gígavattstundir,“ segir Jónas.
Svo fylgir henni raforkuöryggi.
„Já, já. Það fer varla rafmagnið af hér á svæðinu. Það var náttúrulega ýmiss svona veikleiki hér áður,“ segir viðhaldsstjóri Blönduvirkjunar.

„Það er öryggi. Þeir sækja bara í heildstætt öryggi,“ segir Valgarður.
Sveitarstjóri Blönduóss, Valdimar O. Hermannsson, segir Blönduvirkjun vannýtta vegna skorts á flutningslínum. Í héraði sjá menn jafnframt ný tækifæri vegna áforma Landsvirkjunar um að virkja sjötíu metra fallhæð milli miðlunarlóna.
„Nú er búið að hanna þar rennslisvirkjanir til að stækka Blönduvirkjun á næstu árum. Og það er bara verið að bíða eftir að Blöndulína 3 komist þá norður í Eyjafjörð og svo tenging aftur austur á land,“ segir Valdimar.

Og þar er búið að deiliskipuleggja fimmtán hektara svæði sem gæti rúmað til dæmis fleiri gagnaver.
„Það er bæði markaður fyrir meira og vilji til þess að fara í meira,“ segir umsjónarmaður gagnaversverkefnis, Valgarður Hilmarsson.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: