Skoðun

Kyrravika

Guðmundur Brynjólfsson skrifar
Fjöldamargir breiddu klæði sín á veginn en aðrir hjuggu greinar af trjánum og lögðu á veginn.“ (Mt 21:8)

Er það nákvæmlega þarna sem kyrravika hefst? Í ókyrrð þeirri er skapast þegar Jesús ríður inn í Jerúsalem og fólkið fagnar honum. Svo sem lýst er.

Þær greinar sem þarna eru afhoggnar hvern pálmasunnudag þroskast í kyrrð þessarar viku og rísa svo upp áður en sjálfur frelsarinn rís upp frá dauðum, rísa upp sem krosstréð þar sem hann gefur upp öndina. Pálmarnir sem fólkið stendur með í höndunum og kastar frá sér Jesú til dýrðar verða að aftökutæki. Vítisvél.

Þetta er ljót mynd. En þannig er sagan. Og þegar sagan birtir okkur ljóta mynd er óvitlaust að róa sig aðeins og hugsa sinn gang; íhuga.

Íhuga hvernig sama fólkið – að stórum hluta – gat umturnast í múgæsing og spennu mannlegra vélráða á nokkrum tugum klukkustunda, frá því að fagna með pálmagreinum yfir í að hrópa: „Krossfestu hann!“

Það var fólk sem hrópaði „krossfestu hann“, það var fólk sem krossfesti hann.

Þess vegna, kyrravika. Íhuga hvað?

Jú, til dæmis það fyrir hvað við lifum. Hvað við ræktum. Hvað við gerum með pálmann sem við stöndum með í höndunum dag hvern – eða ekki. Fyrir hvers fætur við köstum honum, eða fyrir hvers fætur við köstum okkur? Íhuga hvernig það hefur leikið okkur að trúa á menn.

Hugsa um djöfulskapinn sem mannskepnan hefur staðið að í gegnum tíðina, gegn mönnum jafnt sem náttúru. Um vítisvélarnar sem maðurinn hefur uppfundið. Um bölið sem við búum okkur til. Um það sem við gloprum út úr lúkunum, eyðileggjum, brjótum gegn. Íhugum allt það sem hrekur okkur út í það horn að spyrja:

Guð, því lætur þú þetta gerast?




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×